Móttökuáætlun nemenda með sérþarfir

Í 9. gr. reglugerðar um nemendur með sérþarfir nr. 585/2010 segir:

Auk almennrar móttökuáætlunar samkv. 16. gr. laga um grunnskóla skulu grunnskólar útbúa móttökuáætlun fyrir nemendur með sérþarfir. Í slíkri áætlun skal m.a. gera grein fyrir samstarfi innan skólans um skipulagi kennslunnar, aðbúnaði, aðstöðu, notkun hjálpartækja, skipulagi einstaklingsnámskrá, kennsluháttum og námsmati, hlutverki umsjónarkennara, sérkennara og annarra fagaðila innan skólans og samstarfi við foreldra. Tilgreina skal áform skólans um stuðning við nemendur með sérþarfir við nemendur til félagslegrar þátttöku og virkni í skólasamfélaginu, svo sem í félagslífi og tómstundastarfi skólans. Í slíkri áætlun skal einnig gera grein fyrir samstarfi við aðila utan skólans.

Í Öldurtúnsskóla er almenn áætlun um móttöku nýrra nemenda og gildir hún fyrir alla nemendur sem koma nýjir í skólann. Almenna áætluninni tekur til allra helstu atriða sem eiga við þegar kemur að því að byrja í nýjum skóla. Í þessari áætlun er gerð grein fyrir þeim áhersluatriðum er varða sérstaklega nemendur með sérþarfir og falla ekki undir almennu áætlunina.

1. Samstarf um skipulag kennslu, einstaklingsnámskrár, kennsluhætti og námsmat

Deildarstjóri stoðþjónustu/sérdeildar hefur umsjón með móttöku nemenda með sérþarfir í skólann. Ef nemandinn er skráður í almennan bekk ber umsjónarkennari ábyrgð á samstarfi við sérkennara og foreldra. Ef nemandi er skráður í sérúrræði eða sækir kennslu til sérkennara 50% eða meira er sérkennari valinn sem umsjónarkennari barnsins, hann ber þá meiri ábyrgð á samstarfi við umsjónarkennara og foreldra, sérstaklega ef nemandinn er skráður í sérdeild skólans.

Umsjónarkennari og sérkennari bera sameiginlega ábyrgð á gerð einstaklingsnámskrár þar sem tekið er mið af greiningum/þroskamati viðkomandi nemenda, óskum foreldra og mati starfsmanna á hverjum tíma. Í einstaklingsnámskrá skal tiltekið um námsmarkmið, námsaðstæður, námsefni, námsmat og aðrar aðstæður í skólanum s.s. frímínútur og matartíma. Kennslan getur farið fram með eða án stuðnings í almennum bekk, í litlum hópi, í námsveri eða einstaklingskennslu utan bekkjar.

Fjölbreytt námsmat er notað til þess að fylgjast með hvernig nemanda tekst að mæta markmiðum einstaklings­námskrár og til að örva nemendur til framfara. Námsmat birtist í hæfnikorti nemandans. Lokaeinkunn er birt í bókstöfum (A-D) og getur verið stjörnumerkt eftir atvikum en umsögn þarf að fylgja með til hvatningar og stuðnings.

2. Notkun hjálpartækja

Ef nemandi þarf á hjálpartækjum að halda við nám sitt verður leitað allra leiða til að hafa þau tiltæk til náms. Hér getur verið um að ræða Ipad, snjallforrit, tölvur og ýmis jaðartæki fyrir tölvur, lestrarforrit, ýmis gagnvirk forrit og fl.

3. Stuðningur til félagslegrar þátttöku og virkni

Deildarstjóri sérkennslu/sérdeildar hefur forystu um samstarf við félagsmiðstöðina í skólanum og félagsþjónustu Hafnarfjarðar um félagsstarf fyrir nemendur með sérþarfir. Leitast skal við að allir nemendur skólans í markhópi félagsmið­stöðvarinnar geti sótt félagsstarf þangað. Í vettvangs­ferðum og lengri ferðum s.s. ferðum í skólabúðir er sérstaklega gætt að því að allir nemendur viðkomandi árgangs geti tekið þátt.

4. Aðbúnaður og aðstaða

Aðstaða og aðbúnaður til sérkennslu er í samræmi við lög og reglugerðir. Leitast er við að hafa fjölbreytt úrval námsgagna svo sem nýta snjalltæki, tölvur og forrit til að mæta þörfum nemenda.

5. Samstarf við aðila utan skólans

Samstarf er við félagsþjónustu Hafnarfjarðar, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, BUGL og aðra þá sem vinna með viðkomandi börn. Umsjónarkennari og deildarstjóri sitja skilafundi og teymisfundi eftir þörfum. Deildarstjóri tekur að sér formennsku í þeim teymum sem eru mynduð vegna nemenda með sérþarfir. Samstarf við foreldra utan teyma eru hefðbundin foreldraviðtöl, samskipti gegnum Mentor, með tölvupósti auk samstarfsfunda eftir þörfum og/eða áætlunum sem gerðar eru.

Uppfært ágúst 2021


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is