Mat á skólastarfi

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 er kveðið á um sjálfsmat skóla. Samkvæmt þessum lögum velur skólinn sjálfur aðferðir við matið. Skólastjóri sem er faglegur forystumaður skólans ber m.a. ábyrgð á því að virkja þátttakendur og ná sem breiðastri samstöðu um matið. Á fimm ára fresti gerir menntamálaráðuneytið úttekt á þeim aðferðum sem skólarnir nota. Til að mat teljist uppfylla viðmið laga þarf það að vera formlegt, altækt, áreiðanlegt, samstarfsmiðað, umbótamiðað, árangursmiðað, stofnana- og einstaklingsmiðað, lýsandi, greinandi og opinbert.

Mat á skólastarfi er stöðug viðleitni til að gera góðan skóla enn betri með mælingum á framkvæmd starfsins, endurskoðun og umbótaáætlunum í kjölfar þeirra. Matið er verkfæri til að bæta gæði náms og þeirrar þjónustu sem við viljum veita nemendum okkar og aðstandendum þeirra. Sjálfsmat skólans er unnið af stýrihópi undir stjórn skólastjóra. Markmiðin í skólastarfinu, bæði aðalnámskrá og skólanámskrá, svo og aðstæður skólans á hverjum tíma eru undirstaða matsins. Matsáætlun skólans lýsir hvaða þættir eru metnir hverju sinni og hvaða aðferðum er beitt. Matsáætlun er endurskoðuð árlega.

Tilgangur og markmið með mati á skólastarfi

  • Leita leiða til að bæta námsárangur nemenda.
  • Efla þekkingu allra starfsmanna á stofnuninni sem heild.
  • Auka samstarf og samheldni allra sem koma að skólastarfinu, nemenda, foreldra og starfsmanna.
  • Bæta starfsaðstæður og stuðla að betri líðan þeirra sem í skólanum starfa, hvort sem um nemendur eða aðra er að ræða.
  • Skapa frjóa umræðu og skoðanaskipti.
  • Stuðla að þróun og vexti skólans.
  • Tryggja upplýsingamiðlun um starfsemi skólans bæði inn á við og út á við.

 


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is