Staðan varðandi smit

23.11.2021

Það er afar brýnt að halda skólasamfélaginu upplýstu þegar kemur að smitum í Öldutúnsskóla. 

Eins og staðan er í dag þá hefur ekki komið upp staðfest smit innan skólans í tæpar 2 vikur. Samtals frá skólabyrjun í haust hafa 30 nemendur greinst jákvæðir, þar af 22 í október og nóvember. Langflestir hafa greinst jákvæðir í sóttkví. Smitrakning hefur því gengið vel það sem af er og okkur hefur tekist að halda úti nokkuð eðlilegu skólastarfi.
Umræðan í fjölmiðlum undanfarna daga hafa verið á þá leið að efast sé um að skólastjórnendur hafi heimild að setja börn í sóttkví og smitgát og fleira í þeim dúr. Hér eru útskýringar sóttvarnalæknis á þessu.
Við í Öldutúnsskóla tökum öllum sóttvörnum alvarlega og vinnum að smitrakningu í samræmi við þær reglur sem eru í gildi. Hingað til hefur þetta gengið vel og það er fyrst og fremst foreldrum, nemendum og starfsmönnum að þakka að við höfum náð vel utan um þetta.
Foreldrar eru hvattir til að hafa samband ef það eru einhverjar spurningar. 

Við tökumst á við þetta saman.

Hvernig virkar smitrakning? - Til upplýsingar

Ef barn eða starfsmaður er með Covid og smitið hefur ekki áhrif innan skólans þá hefur smitrakningarteymi ekki samband við skólann. Hér getur átt við einstakling sem greinist jákvæður í sóttkví eða hefur ekki verið í skólanum í nokkra daga, t.d. var í fríi eða eftir jólafrí eða eitthvað slíkt. Foreldrar tilkynna þá bara til ritara eða skólastjóra um veikindi barns. Skólinn sendir ekki póst á foreldra ef smit hefur ekki áhrif innan skólans.

En hver metur það hvort smit hafi áhrif?
Smitrakningarteymið metur það ásamt skólastjóra. Ef einstaklingur greinist jákvæður á fimmtudegi þá er fyrst spurt hvenær hann fékk einkenni. Ef einkenni komu fram á fimmtudegi þá eru þeir sem hann var að umgangast mikið og náið á miðvikudegi komnir í sóttkví. Ef einkenni komu fram á miðvikudegi þá eru þeir útsettir sem voru í nánu samneyti við viðkomandi á þriðjudegi og miðvikudegi. o.s.frv. Ef einstaklingur er einkennalaus þegar hann greinist þá er viðmiðið tveir dagar á undan.
Þeir einstaklingar sem eru mögulega útsettir eru svo settir í smitgát.

Ef barn eða starfsmaður greinist jákvæður og smitið hefur áhrif innan skólans þá hringir smitrakningarteymið í skólastjóra. Hér fyrir neðan eru þau skref sem eru tekin:

  • Símtal berst frá foreldri og/eða smitrakningarteymi. Skólastjóri fær upplýsingar um staðfest smit hjá barni eða starfsmanni. Ath. að foreldrar eru hvattir til að láta vita ef staðfest smit þar sem það líður alltaf ákveðin tími þar til smitrakningarteymi hefur samband.
  • Skólastjóri vegur og metur aðstæður með smitrakningarteymi og tekin er ákvörðun um næstu skref.
  • Skólastjóri upplýsir stjórnendateymið um smitið og fær aðstoð frá þeim ef smitrakning er umfangsmikil.
  • Hringt er í starfsmenn sem þurfa í sóttkví eða smitgát.
  • Ef starfsmaður er jákvæður fær skólastjóri upplýsingar frá starfsmanni um hverjir eru mögulega útsettir og skólastjóri hringir þá í þá starfsmenn.
  • Sendur er tölvupóstur á þá foreldra sem eiga börn sem þurfa í sóttkví og smitgát. Ef fáir þurfa í sóttkví er hringt í þá foreldra.
  • Sent er sms á alla foreldra í árganginum um að það bíði þeirra mikilvægur tölvupóstur sem þarf að lesa.


Mjög mikilvægt að treysta þessu ferli. Mörgum gæti þótt skrýtið af hverju þessi einstaklingur er í sóttkví eða þessi smitgát o.s.frv. Fyrir því liggja ástæður sem ykkur eru ekki alltaf ljósar eins og t.d. að sá smitaði var lengi með einkenni í skólanum, var í nánum samskiptum og lengi innan fjarlægðarmarka. Þetta þarf allt að skoða.

Þetta getur verið ruglingslegt en við höfum lagt okkur fram um að reyna að upplýsa ykkur vel og það gerum við m.a. til að skapa ró og að traust ríki til þeirra aðgerða sem gripið er til.

Lykilatriði í þessu öllu eru persónubundnar sóttvarnir!


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is