Söngkeppni Hafnarfjarðar 2023

17.3.2023

Söngkeppni Hafnarfjarðar var haldin í Bæjarbíó miðvikudaginn 15. mars en þessi árlegi viðburður er einn stærsti og flottasti viðburður félagsmiðstöðvanna á hverju ári.
Þátttakendur í kvöld voru tíu talsins frá sjö félagsmiðstöðvum og voru þeir hver öðrum glæsilegri. Fyrirkomulagið er þannig að tvö atriði vinna keppnina og komast áfram í Söngkeppni Samfés sem verður haldin í Laugardalshöll og í beinni útsendingu á RÚV í byrjun maí.
Keppendur voru Marta Manuela Estevez (Aldan), Elísabet Ósk L. Ólafíudóttir (Verið), Áslaug Sara Lárusdóttir (Mosinn), Steiney Lilja Einarsdóttir (Aldan), Ellý Hákonardóttir (Ásinn), Sunna Björk Magnúsdóttir (Hraunið), Áróra Sif Rúnarsdóttir (Núið), Ísabella Berg Brynjarsdóttir (Mosinn), Hrafnhildur Björk Ragnarsdóttir (Hraunið) og hljómsveitin Enter name (Vitinn) og voru þau Ísak Gunnarsson frá Ásnum og Ellen María Arnarsdóttir frá Verinu kynnar kvöldsins.
Það öfundaði enginn dómnefndina af því að þurfa að velja á milli þessara glæsilegu atriða. Dómnefndina skipuðu Siggi Gunnars, tónlistarstjóri Rásar2, Kjalar Marteinsson Kollmar, söngvari og lagahöfundur og Silja Rós Ragnarsdóttir, söngkona og lagahöfnundur.
Sigurvegarar kvöldsins fengu í verðlaun ráðgjöf frá söngkonunni og lagahöfundinum Klöru Elías og fá svo að fara í stúdíóið í Músík og mótor að taka upp lagið sitt og farandbikar.

Allir keppendur fengu viðurkenningarskjal og rós.

Sigurvegarar kvöldsins voru þær Ellý Hákonardóttir frá Ásnum í Áslandsskóla með lagið Strange og Sunna Björk Magnúsdóttir frá Hrauninu í Víðistaðaskóla með frumsamda lagið Blue butterfly.

Í öðru sæti endaði Hrafnhildur Björk Ragnarsdóttir frá Hrauninu í Víðistaðaskóla með lagið Hopelessly Devoted to you og í þriðja sæti varð Marta Manuela Estevez frá Öldunni í Öldutúnsskóla með lagið Summertime Sadness.

Við getum svo sannarlega verið stollt af frábæru unglingunum okkar, sem stóðu sig svo vel á stóra sviðinu í kvöld fyrir framan fjöldan allan af áhorfendum. 


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is