Skólastarf frá 23. nóvember

20.11.2020

Mánudaginn 23. nóvember 2020 taka gildi nýjar sóttvarnarreglur í Öldutúnsskóla sem ná til 1. desember nk. Við nýjar breytingar leggjum við áherslu á að stíga varlega til jarðar.

Eftir yfirlegu á nýrri reglugerð sóttvarnayfirvalda er tekin sú ákvörðun að það skipulag sem hefur verið haldi í meginatriðum.

 

1. – 4. bekkur

Nemendur í 1. - 4. bekk munu fá fullan skóladag áfram. Tónmenntakennsla og íþrótta- og sundkennsla byrjar aftur. Sundkennsla er í Suðurbæjarlaug og íþróttakennslan í íþróttahúsinu við Strandgötu. Nemendum áfram skipt í kennsluhólf sem í geta verið allt að 50 nemendur (tveir bekkir). Kennsla verður 6 kennslustundir á dag, frá 08:10 – 13:00. Eftir hefðbundna kennslu tekur við starfsemi frístundaheimilisins fyrir þá nemendur sem eru skráðir. Starfsemi frístundaheimilisins verður í húsnæði frístundar og í sumum umsjónarkennslustofum skráðra nemenda. Frístundabíllinn byrjar að keyra aftur skv. áætlun.

Nemendur fara út í frímínútur og geta þar blandast öðrum kennsluhólfum. Engin ákvæði eru um blöndun nemendahópa í frímínútum.

Matarþjónusta nemenda mun vera með hefðbundnu sniði, þ.e. þeir nemendur sem eru í áskrift að ávöxtum og hádegismat í nóvember og desember munu fá matinn sinn í samræmi við áskrift. Ekki verður samt boðið uppá hafragraut að morgni. Matsalnum verður skipt niður í 3 hólf. Nemendur á yngsta stigi munu koma í mat á bilinu 11:00 – 12:30 og matast í einu hólfi. Ekki er hægt að hita mat í skólanum og því þurfa þeir nemendur sem koma með nesti að vera með eitthvað sem þarf ekki að hita.

5. – 7. bekkur

Kennslustarfsemin verður einfölduð í skólanum. Kennsla fer fram í umsjónarstofum. Það verður ekki sund- eða íþróttakennsla í íþróttahúsum og engin kennsla fer fram í list- og verkgreinastofum. Starfsfólki verður skipt í hópa þar sem ekki verða fleiri en 10 fullorðnir og þeir tengjast um leið einu kennsluhólfi. Sérkennsla byrjar aftur en tekur mið af ítrustu sóttvörnum.

Í 5. - 7. bekk koma nemendur í styttri skóladag en venjulega. Þeir eru í skólanum um 4 kennslustundir og eru þá búnir í skólanum í kringum hádegi. Aukin áhersla er á heimanám og gert ráð fyrir að nemendur séu að vinna 1 – 2 klst. heima.

  • Nemendur í 5. og 6. bekk byrja klukkan 08:20. Nemendur geta mætt í skólann frá 08:00 – 08:20.
  • Nemendur í 7. bekk byrja klukkan 08:30. Nemendur geta mætt í skólann frá 08:10 – 08:30.

Hver bekkur er sérstakt kennsluhólf og blandast ekki nemendum annarra bekkja. Nemendur fara einu sinni í frímínútur og þar mega nemendur leika saman þvert á kennsluhólf. Ekkert ákvæði um blöndun nemendahópa í frímínútum.

Það er ekki grímuskylda fyrir nemendur á miðstigi. Nemendur mega samt vera með grímu ef þeir vilja og geta þá fengið hana í skólanum.

Matarþjónusta nemenda mun vera með hefðbundnu sniði, þ.e. þeir nemendur sem eru í áskrift að ávöxtum og hádegismat í nóvember og desember munu fá matinn sinn í samræmi við áskrift. Ekki verður samt boðið uppá hafragraut að morgni. Matsalnum verður skipt niður í 3 hólf. Nemendur á miðstigi munu koma í mat á bilinu 11:00 – 12:00 og matast í einu hólfi. Ekki er hægt að hita mat í skólanum og því þurfa þeir nemendur sem koma með nesti að vera með eitthvað sem þarf ekki að hita.

8. – 10. bekkur

Kennslustarfsemin verður einfölduð í skólanum. Kennsla fer fram í umsjónarstofum næstu tvær vikurnar. Það verður ekki sund- eða íþróttakennsla í íþróttahúsum og engin kennsla fer fram í list- og verkgreinastofum. Frá og með mánudeginum verður aukning á faggreinakennslu. Kennarar fara í auknu mæli á milli nemendahópa.

Í 8. - 10. bekk koma nemendur í styttri skóladag og eru fram að hádegismat eða um 4 kennslustundir á dag.

  • 8. bekkur á að mæta í skólann klukkan 08:00.
  • 9. bekkur á að mæta í skólann klukkan 08:10.
  • 10. bekkur á að mæta í skólann klukkan 08:20.

Nemendur eru búnir í skólanum á bilinu 11:30 – 12:15. Hádegismatur er eftir síðustu kennslustund.

Hver bekkur er sérstakt kennsluhólf og blandast ekki nemendum annarra bekkja. Nemendur fara ekki út í frímínútur og verða í stofum sínum allan skólatímann og halda síðan beint heim. Nemendur mega búast við auknu námi, 2 – 3 klst. á dag, heima sökum styttingar á daglegri kennslu í skóla. Þar sem EKKI er hægt að halda 2ja metra fjarlægðarreglu í kennslustofum þurfa ALLIR nemendur í 8. - 10. bekk að vera með grímur í skólanum allan skóladaginn, bæði á göngum skólans og í kennslustundum. Starfsfólk skóla skal vera með grímur á göngum og í kennslustofum ef það getur ekki haldið 2ja metra fjarlægð. Skólar útvega þeim grímur sem ekki koma með grímur að heiman. Grímur verða í anddyrum og verða starfsmenn sem afhenda þær.

Matarþjónusta nemenda mun vera með hefðbundnu sniði, þ.e. þeir nemendur sem eru í áskrift að ávöxtum og hádegismat í nóvember og desember munu fá matinn sinn í samræmi við áskrift. Ekki verður samt boðið uppá hafragraut að morgni. Matsalnum verður skipt niður í 3 hólf. Nemendur á unglingastigi munu fá hádegismat á bilinu 11:00 – 12:00 og matast í sinni stofu. Ekki er hægt að hita mat í skólanum og því þurfa þeir nemendur sem koma með nesti að vera með eitthvað sem þarf ekki að hita.

Að lokum

Foreldrar eiga ekki að koma inn í skóla nema í undantekningartilvikum, þ.e. ef skóli kallar á foreldra vegna veikinda eða að annarra sérstakra aðstæðna hjá börnum þeirra. Foreldrar sem fylgja börnum sínum í skólann og sækja skulu sleppa þeim og taka á móti þeim við útidyr og ekki fara inn í skóla hvernig sem veðurfari er háttað. Almennt gilda sömu reglur um veikindi og leyfi og verið hafa.

Ekki er á þessari stundu vitað hvað tekur við eftir 1. desember.

Sóttvarnaraðgerðirnar eru íþyngjandi fyrir skólastarfið, á starfsfólk, nemendur og foreldra. Við biðjum um þolinmæði gagnvart breytingum á starfsemi sem mun eiga sér stað. Mikilvægt er að horfa jákvætt á nýjar aðstæður því hæfni manns til að aðlaga sig að breyttum aðstæðum er eiginleiki sem gefur fleiri tækifæri í lífinu og eykur þrautseigju okkar.

Minnum á að það er áfram gott aðgengi að starfsmönnum skóla í gegnum tölvupóst eða síma.

Við erum öll saman í þessu verkefni. Við erum öll almannavarnir.


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is