Óvissuferð kórs Öldutúnsskóla
Kór Öldutúnsskóla fór í óvissuferð í síðustu viku.
Hópurinn fór með rútu að Reykjadal í Hveragerði þar sem hann gekk sem leið lá upp að náttúrulaugunum. Þar gafst krökkunum tækifæri til að hvíla sig, vaða í laugunum, stilla sér upp fyrir hópmynd og taka lagið.
Þegar niður var komið fór hópurinn að fögrum lundi í Hveragerði og gæddi sér á grilluðum pylsum í steipiregni. Kórfélagar létu það ekki á sig fá og héldu sig í skógarþykkni við dynjandi tónlist úr tæki sem var með í farteskinu. Næsti áfangastaður var Fontana á Laugarvatni þar sem krakkarnir hvíldu sig í heitum laugum, skelltu sér út í sjálft vatnið og sungu fyrir gesti og gangandi. Kórinn gisti svo á Héraðsskólanum á Laugarvatni sem er nú sambland af mynjasafni og gistiheimili. Þar gæddu börnin sér á pizzum og höfðu það náðugt við leik og samveru um kvöldið. Eftir staðgóðan morgunverð daginn eftir hélt hópurinn heim á leið. Allir voru í skýjunum með ferðina sem gekk vel í alla staði. Kórkrakkarnir áttu hana svo sannarlega skilið eftir elju og dugnað á erfiðum Covid tímum.