Nemendur á unglingastigi fengu verðlaun fyrir verkefnið Nýtt samfélag

28.4.2021

Nemendur í unglingadeild Öldutúnsskóla tóku þátt í Varðliðar umhverfisins sem er haldið á vegum Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Landverndar og Miðstöðvar útivistar og útináms.

Verkefnið sem nemendur í unglingadeild sendu inn var þemaverkefni sem þeir unnu fyrir jól. Verkefnið fjallaði um 100 manna hóp sem fer frá jörðinni vegna þess að hún er að verða óbyggileg sökum loftslagsbreytinga. Einstaklingarnir 100 stefndu til nýrrar plánetu sem er sambærileg jörðinni en sú nýja var ósnortin af áhrifum mannsins. Nemendur völdu hópinn og bjuggu til nýtt samfélag. Þeir þurftu að horfa til reynslu mannkyns og m.a. nýta sér þá þekkingu við að skapa nýja samfélagið. Nemendur horfðu í byrjun á mynd Sameinuðu þjóðanna, Before the Flood, sem fjallar um hlýnun jarðar. Myndin er mjög áhrifarík og nemendur kynntust þar að það er ekki bara notkun farartækja sem veldur loftslagsbreytingum heldur einnig t.d. hnignum skóga af mannavöldum, að rautt kjöt er stór áhrifaþáttur í mengun og sáu svart á hvítu hversu illa við erum að fara með jörðina. Það reyndi hressilega á unga fólkið okkar að skipuleggja nýjan heim sem færi ekki í sama farið og sá sem farið var frá. Hreint og sjálfbært samfélag á heilbrigðri plánetu.

Nemendur fengu fyrstu verðlaun í þessari samkeppni núna árið 2021 og er það frábær árangur. Verkefnið var virkilega vel unnið og nemendur lögðu sig alla fram.

Verðlaunin voru tilkynnt á Umhverfisþingi þann 27. apríl 2021. Hægt er að horfa á viðburðinn á þessari slóð.

Það kemur að verðlauna afhendingunni eftir rúmlega 20 mínútur.


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is