Innleiðing á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

18.2.2021

Þann 27. mars 2019 undirrituðu Bergsteinn Jónsson, framkvæmdarstjóri UNICEF á Íslandi, og Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar samstarfssamning, en með honum hóf Hafnarfjarðarbær vinnu við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hafnarfjarðarbær stefnir að því að hljóta viðurkenningu fyrir barnvænt samfélag UNICEF á Íslandi.

Með innleiðingu Barnasáttmálans samþykkir sveitarfélagið að nota Barnasáttmálann sem rauðan þráð í gegnum alla starfsemi sína. Segja má að starfsmenn og stjórnmálamenn sveitarfélagsins setji upp ,,barnaréttindagleraugu“ og rýni og skoði verk- og ákvarðanaferla með hliðsjón af sáttmálanum.

Barnvænt samfélag skuldbindur sig til þess að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að vinna markvisst eftir hugmyndafræði verkefnisins sem byggir á eftirfarandi grunnþáttum:

 

  • Þekkingu á réttindum barna innan sveitarfélagsins.
  • Að haft sé að leiðarljósi það sem barninu er fyrir bestu.
  • Jafnræði – að horft sé til réttinda allra barna.
  • Að þátttaka barna sé markviss í starfi og ákvörðunum bæjarins.
  • Að barnvæn nálgun sé viðhöfð innan sveitarfélagsins.

 

Einn mikilvægasti þátturinn í innleiðingunni er kortlagning á stöðu og velferð barna í sveitarfélaginu. Kortlagningin byggir á mörgum þáttum en síst því að leita eftir skoðunum og upplifunum barna á því hvernig hægt sér að gera bæinn að enn betri stað fyrir öll börn. Börn búa yfir mjög verðmætri þekkingu á því hvað sé vel gert og hvað sé hægt að gera betur.

Nánar um barnasáttmálann

Nánar um UNICEF


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is