Fyrsta skólavikan eftir jólafrí

7.1.2022

Fyrsta skólavikan á nýju skólaári hefur gengið vel. Börnin mættu spennt í skólann, gaman að hitta vini, starfsmenn og byrja aftur í rútínu eftir kósýheit um hátíðirnar.

Covid fylgir skólastarfinu samt áfram eins og skugginn og bíður færis á að stinga sér niður. Við getum reynt að lágmarka þá áhættu á því að smitast af Covid með því að viðhafa persónubundnar sóttvarnir. Einnig er mikilvægt að nemendur fara í skimun ef þeir eru með einkenni. Ekki að koma í skólann með einkenni nema búið sé að ganga úr skugga um að það sé ekki Covid sem veldur einkennum. Það sem einkennir þetta Omikron afbrigði er að það er almennt vægara og einkenni oft á tíðum minni. Allir þurfa því að vera enn meira vakandi fyrir einkennum en áður.

Staðan í Öldutúnsskóla eftir þessa fyrstu viku er samt nokkuð góð. Nokkur Covid smit voru staðfest hjá börnum og starfsmönnum um hátíðirnar og eitt smit hefur verið staðfest í skólanum síðustu daga, búið er að rekja það smit og láta alla hlutaðeigandi aðila vita. Ef upp kemur smit í árgangi eru allir foreldrar árgangsins látnir vita. Ekki bara þeir sem eiga börn sem þurfa í sóttkví eða smitgát.

Innan skólans eru allir að leggjast á eitt við að gæta að sóttvörnum. Starfsmenn nota grímur á opnum svæðum og þurfa að gæta að nálægðarmörkum. Spritt er aðgengilegt í öllum rýmum skólans og matsalur er lokaður þessa dagana. Við vonumst til að hægt verði að opna hann sem fyrst aftur.

Starfsmenn og nemendur Öldutúnsskóla senda hlýjar kveðjur á þá sem eru í sóttkví eða einangrun.


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is