Árshátíð unglingadeildar og Öldunnar

8.6.2021

Árshátíð Öldutúnsskóla og Öldunnar fór fram við mikinn fögnuð mánudaginn 7. maí. Nemendafélagið vann vel úr erfiðum samkomutakmörkum vetrarins og skipulagði árshátíð með skömmum fyrirvara þegar takmarkanir fóru í 150. Mæting fór fram úr björtustu vonum, en rúmlega 140 nemendur skráðu sig til þátttöku og samheldni árgangana skein í gegn allt kvöldið.

Nemendur sáu alfarið um að undirbúa dagskrá og skemmta yfir borðhaldi. Kormákur Valdimarsson var veislustjóri, Hrafn Steinar Sigurðsson var með uppistand, hljómsveit skipuð Gabriele Budryte, Degi Erni Björnssyni og Thelmu Ósk Sigurgeirsdóttur kom fram yfir matnum og nemendur úr 10.bekk sýndu myndband.

Eftir matinn kom DJ Ragga Hólm og hélt uppi stuði á balli fram á kvöld, Háski, sem sló í gegn á Loksins ballinu í vetur, kom aftur til okkar og tók nokkur lög og Ásbjörn flutti nýtt lag. Gleði, fjör og samheldni einkenndi kvöldið að öllu leyti og ekki hægt að sjá annað en að heimsfaraldur hafi kennt okkur öllum að meta það að fá að hittast og vera saman aðeins betur en áður.  


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is