Saga Öldutúnsskóla

Saga skólans hófst í október 1959 þegar bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti að hefja byggingu smábarnaskóla upp á Öldum. Eftir að byggingarframkvæmdir við skólann hófust, liðu tvö ár þar til að hægt var að hefja þar kennslu sem var í tveimur kennslustofum þann 20. október 1961. Tvær stofur bættust síðan við nokkru fyrir jól. Alls voru 203 sjö og átta ára nemendur í átta bekkjardeildum. Haukur Helgason, skólastjóri, ásamt fjórum kennurum hófu þá störf við skólann.

Á þessum tíma var unglingum kennt í Flensborgarskóla, en Lækjarskóli og Öldutúnsskóli voru barnaskólarnir í bænum. St. Jósepsskóli var lagður niður um leið og Öldutúnsskóli tók til starfa. Bærinn óx afar hratt og þörfin fyrir aukið húsnæði var því mikil. Um hundrað nemendur bættust við Öldutúnsskóla á hverju ári næstu árin. Veturinn 1963 til 1964 voru þeir orðnir 405 og enn voru stofurnar aðeins fjórar. Skólinn var fjórsetinn. Fjórir bekkir voru um sömu stofuna. Sá fyrsti kom kl. 8:00 og sá síðasti kl.15:30. Kennslu lauk kl.18:00 og kennt var alla daga vikunnar nema sunnudaga. Eftir nokkur átök um forgangsröðun skólabygginga í bænum varð það ofan á að byggja annan áfanga Öldutúnsskóla, átta almennar stofur og þrjár sérstofur. Þetta húsnæði komst í notkun í áföngum á árunum 1964 til 1966 og gjörbreytti það öllu skólastarfinu.

Baráttan fyrir góðum búnaði

Skóli er ekki bara hús, skóli er líf sem mótast og glæðist innan veggja þess húss er hýsir nemendur og kennara í sameiginlegu starfi þeirra. Kennararnir voru afar áhugasamir og duglegir og markmið þeirra var ekki að fylla kerið heldur að kveikja ljósið. Samstarf og samvinna voru þeirra lykilorð. Baráttan fyrir því að búa skólann vel að kennslutækjum var hörð en kennslubókin hafði nánast verið eina tæki kennarans í íslenskum skólum. Á þessum árum skipaði Öldutúnsskóli sér í fremstu röð um öflun gagna og tækja til kennslu.

Kennarar skólans mótuðu ný vinnubrögð á grundvelli þeirra möguleika sem bættur aðbúnaður skapaði þar sem hugur og hönd léku saman. Lestrarnámið og hin nýju vinnubrögð þörfnuðust bókasafns. Sögð er sú saga að skólastjóri hafi gripið til þess ráðs að höndla ótæpilega á bókamarkaði sem var á laugardegi það sinnið. Síðan hafi hann setið allan sunnudaginn við að stimpla bækurnar. Þegar reikningurinn barst til yfirvalda á mánudeginum var honum þegar í stað skipað að skila bókunum - en því miður, það var ekki hægt því búið var að stimpla þær með stimpli skólans. Bókasafnið komst upp til ómetanlegs gagns fyrir skólastarfið.

Árið 1965 var Rúnar Brynjólfsson ráðinn yfirkennari við skólann en hann var mikill fagmaður og margreyndur félagsmálamaður.

Unglingadeild í skólann. Kór Öldutúnsskóla stofnaður

Haustið 1966 var byrjað að kenna 1. bekk unglingastigs sem nú er 8. bekkur. Voru þá nemendur orðnir 700. Þegar litið er yfir þennan tíma er ótrúlega margt sem kemur fram í brautryðjendastarfi kennara skólans. Eðlis- og efnafræðikennsla, tungumálakennslan var færð niður í yngri bekki, skapandi vinnubrögð af ýmsu tagi, mynd- og handmennt blómstraði og Kór Öldutúnsskóla var stofnaður 1965 sem átti eftir að bera hróður skólans vítt um lönd undir styrkri stjórn Egils R. Friðleifssonar. Félagslíf nemenda og kennara var einnig með miklum ágætum.

Í upphafi áttunda áratugarins voru sex ára börn tekin inn í skólann. Mjög var líka þrýst á að unglingadeildum væri fjölgað og 2. bekkur unglingastigs, nú 9. bekkur, yrði í skólanum. Þetta kallaði á stóraukið húsnæði. Brugðið var á það ráð að byggja fjórar litlar stofur úr timbri við suðurenda skólans til bráðabirgða. Þetta bráðabirgðahúsnæði entist í 25 ár og var oftast kallað Fjósið.

Nýstárleg vinnubrögð

Sennilega hafa aldrei orðið jafn miklar breytingar á kennsluháttum og námsefni grunnskólanna á Íslandi á jafn skömmum tíma og átti sér stað á árunum um og upp úr 1970. Nýjar hugmyndir fengu mikinn hljómgrunn meðal kennara, einkum þeirra yngri. Margir kennarar skólans tóku þátt í að móta og semja nýtt námsefni til kennslu í grunnskólum og í mörgum tilfellum var það tilraunakennt í Öldutúnsskóla.

Eitt að því sem fljótlega var lögð mikil áhersla á var að temja nemendum samvinnu og sjálfstæð vinnubrögð. Nemendur söfnuðu þá heimildum um viðfangsefnið hverju sinni og unnu svo úr því í fjögurra til sex manna hópum sem fluttu svo niðurstöðurnar fyrir aðra nemendur. Oft var um að ræða leikræna uppfærslu og unnin stór myndverk sem skreyttu síðan kennslustofurnar. Þjálfun nemenda á þennan hátt gerði það að verkum að auðveldara var að takast á við risaverkefni eins og Stóru viku. Fyrsta Stóra vika var unnin síðla vetrar 1973 og fyrsta verkefnið var bærinn okkar. Kristín Ómarsdóttir, rithöfundur var þá nemandi í 10 ára bekk. Hún skrifaði ritgerð um vikuna. Lítum á hvað hún sagði í niðurlagi ritgerðarinnar: ,,Ég get ekki skilið, hvað við gátum verið fljót að koma upp heilli sýningu. Það er eins og allt gangi vel, þegar við vinnum öll saman. Það er svo skrýtið, að krakkarnir og kennararnir eru ekki bara nemandi og kennari, heldur líka vinnufélagar. Þessi vika var lærdómsrík og skemmtileg. Og ég veit meira um bæinn okkar en ég vissi áður, og kannski hefði ég aldei fengið allt þetta að vita. Svona verkefni vildi ég vera með í aftur.” Og Kristín fékk að vera með í svona verkefni aftur því á þessum áratug var Stóra vika haldin sjö sinnum undir ýmsum kjörorðum.

Enn stækkar skólinn

Árið 1978 hafði fræðsluráð samþykkt að hönnuð yrði viðbygging við skólann miðað við að fjöldi nemenda yrði 450 til 500. Framkvæmdir hófust árið 1982 og var lokið 1986 eða átta árum eftir samþykkt fræðsluráðs. Þremur árum seinna, þ.e. árið 1989, voru nemendur 850 eða 400 fleiri en síðasta hönnun hafði gert ráð fyrir. Þrátt fyrir að þrengslin væru mikil var ákveðið að skólinn tæki við kennslu 10. bekkjar. Var þá allur grunnskólinn innan veggja skólans. Erfiðleikarnir við að halda uppi góðu skólastarfi við þessar aðstæður voru ómældir. Álman sem tekin var í notkun haustin 1985 til 1986 gjörbreytti þó allri aðstöðu til kennslu unglingadeildarinnar. Fyrstu unglingarnir komu í skólan 1966 og tuttugu árum síðar var tekið í notkun húsnæði sem þeim var ætlað.

Þrátt fyrir þetta hafði starfið með unglingunum tekist ótrúlega vel miðað við aðstæður. Þökk sé góðum kennurum sem þar störfuðu. Allt starfsfólk: kennarar húsvörður, ritari, matráðskonur, gangaverðir og ræstingafólk lögðu mikið af mörkum á þessum erfiða tíma og á miklar þakkir skildar. Með tilkomu nýs húsnæðis varð margs konar breyting innan skólans. Félagslíf og aðstaða unglinganna gjörbreyttist. Setustofa, stór salur, sérstök eðlis- og efnafræðistofa og heimilisfræðistofa var komin inn í skólann og nú fluttust yngstu nemendurnir út í Fjós.

Aukin þjónusta

Upp úr 1990 víkkaði þjónustuhlutverk skólans enn á margan hátt. Selið var byggt þar sem yngstu nemendurnir gátu dvalið ýmist fyrir eða eftir kennslu. Sérdeild fyrir unglingastigið var stofnuð og innréttað sérstakt húsnæði fyrir starfsemina. Hún átti einnig að þjóna öðrum skólum í bæjarins.

Einsetning

Undirbúningur var hafinn að því að einsetja skólann og 4. áfangi skólans hannaður. Hafist var handa við byggingu hans árið 1997 og lauk henni ári síðar. Það haust lét Haukur Helgason skólastjóri af störfum eftir 37 ára farsælt starf. Við tók Viktor A. Guðlaugsson sem var til ársloka 2000. Aðstoðarskólastjórar voru þá Hulda Sigurðardóttir og Helgi Þór Helgason. Helgi tók síðan við stöðu skólastjóra þegar Viktor lét af störfum og Leifur S. Garðarsson varð aðstoðarskólastjóri ásamt Huldu. Leifur lét af störfum haustið 2002 og við starfi hans tók Guðrún Erna Þórhallsdóttir sem starfaði í tvö ár við skólann. Helgi Þór og Hulda hættu störfum vorið 2004.

Haustið 2004 tók Hallfríður Erla Guðjónsdóttir við skólastjórn og Guðmundur Ingi Jónsson og María Pálmadóttir voru aðstoðarskólastjórar. Þá voru þrjár bekkjardeildir í hverjum árgangi í 1. til 10. og um 610 nemendur. Guðmundur Ingi lét af störfum vorið 2007 og María Pálmadóttir vorið 2008.

Valdimar Víðisson var þá ráðinn aðstoðarskólastjóri og deildarstjórarnir Erna Friðriksdóttir og Margrét Sverrisdóttir. Deildastjóri sérkennslu er Hjálmfríður Sveinsdóttir.

Haustið 2013 tók Valdimar Víðisson við sem skólastjóri og Margrét Sverrisdóttir varð staðgengill skólastjóra.

Haustið 2014 tók Margrét Sverrisdóttir við sem aðstoðarskólastjóri og Lena Karen Sveinsdóttir tók við deildarstjórn yngri deildar.


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is