Reglur um valgreinar utan skóla
Um valgreinar utan grunnskóla
Samkvæmt breytingum á grunnskólalögum sem tóku gildi í júní 2008 hefur skólum nú verið gefin
heimild til að taka gilda ýmsa menntun sem er boðin utan skóla sem hluta valgreina.
Í 26. grein laganna stendur m.a.:
,,…Heimilt er að meta skipulagt nám sem stundað er utan grunnskóla, t.d. við tónlistarskóla, sem
hluta af grunnskólanámi samkvæmt nánari útfærslu í aðalnámskrá grunnskóla. Stundi nemandi
slíkt nám er viðkomandi sveitarstjórn ekki skylt að standa straum af kostnaði sem af því leiðir þótt
námið njóti viðurkenningar í stað skyldunáms. Jafnframt er heimilt að meta tímabundna þátttöku í
atvinnulífi, félagslífi, íþróttum eða skipulögðu sjálfboðastarfi sem nám, enda falli það að
markmiðum skólastarfs...”
Eftirfarandi skilyrði þarf að uppfylla til að valgrein utan skólans verði samþykkt.
1. Námskrá
Til að hægt sé að samþykkja námið sem hluta af grunnskólanámi þarf að liggja fyrir skrifleg námskrá
undirrituð af ábyrgðaraðila. Þar komi fram:
1. Skipulag náms og markmið.
2. Inntak náms.
3. Hverjir kenna (nöfn og menntun þeirra).
4. Hvenær kennslan fer fram (tímabil, vikudagar og tímasetningar).
5. Fyrirkomulag kennslu.
6. Hvernig námið er metið og hvað liggur að baki því og hvernig er gefið fyrir (einkunn og/eða
umsögn) Áreiðanlegar upplýsingar þurfa að fylgja um það hvort að nemandi hefur staðist þau
viðmið/markmið sem stefnt var að í náminu.
2. Kennsla og upplýsingar um ástundun og einkunnir
Valgrein sem er samþykkt utan grunnskóla skal vera kennd af viðurkenndum skóla eða félagsskap og
vottuð að námi loknu. Einkakennsla og heimiliskennsla telst ekki nægjanleg nema að baki því liggi
formleg skólaleyfi (sjálfseignar)stofnunar.
Í lok hverrar skólaannar skal umsjónaraðili valgreinar utan grunnskóla tilkynna skriflega til skrifstofu
viðkomandi grunnskóla um ástundun og einkunn/umsögn og senda afrit til foreldra.
3. Annað
Nemandi sem tekur valgrein utan grunnskóla en hættir við, hefur ekki rétt á að bæta valgreinina upp í
skólanum eftir 1. október. Hætti viðkomandi samt í valgrein utan grunnskóla eða lýkur henni ekki skal
nemandi uppfylla skilyrði um þátttöku í vali á einhvern hátt sem skólastjóri telur viðeigandi, jafnvel á
komandi sumri eða á næsta skólaári eftir nánara samkomulagi þar um milli skóla og foreldra.
Hafnarfjarðarbær hefur engar skyldur um að greiða kostnað sem til fellur vegna valgreina utan skóla,
s.s. efniskostnað, ferðakostnað eða kennslukostnað.