Áfallaáætlun

Í Öldutúnsskóla starfar áfallaráð sem skipað er í upphafi hvers skólárs. Í áfallaráðinu er sérvalinn hópur starfsfólks skólans sem ávallt er í viðbragðsstöðu ef upp kemur áfall sem tengist skólanum.
Mikilvægt er að allar upplýsingar um slík áföll berist áfallaráði strax.

Hlutverk áfallaráðs er:

 • Að sjá um að nemendur skólans fái viðeigandi þjónustu ef þeir verða fyrir áfalli.
 • Að sjá til þess að starfsfólk skólans fái fræðslu í undibúningsatriðum í andlegri skyndihjálp.
 • Að halda utan um og safna saman gögnum um lesefni sem að gagni gæti komið vegna áfalla er tengjast skólanum. Þessi gögn skulu vera á einum stað, öllum kunnug og aðgengileg.

Áföll og sorg geta verið af ýmsum toga. Sorg er ekki ein tilfinning heldur tilfinningaferli sem tekur tíma að vinna sig í gegnum og ekki er hægt að hraða því ferli. Hvort sem okkur finnast áföllin stór eða smá er nauðsynlegt að veita stuðning.

Hvað er áfall?

 • Áföll eru margskonar, s.s.:
 • Dauðsfall
 • Alvarlegt slys
 • Náttúruhamfarir – s.s. jarðskjálfti, snjóflóð, eldgos eða fárviðri
 • Langvarandi veikindi
 • Aðskilnaður (langvarandi eða tímabundinn)
 • Líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi á börnum eða alvarleg vanræksla
 • Heimilisofbeldi
 • Skilnaður foreldra
 • Vímuefnavandi foreldra eða systkina
 • Flutningur milli skóla
 • Breytingar á vinahópi
 • Fæðing systkina

Fólk sem hefur lent í áföllum sýnir mismunandi einkenni streitu og í mismiklum mæli. Oft er annars vegar talað um bráðaeinkenni og hins vegar langvarandi álag. Hvort sem um er að ræða áfall af völdum slyss, náttúruhamfara, sjúkdóms eða andláts er mikilvægt að allir starfsmenn skólans sýni barninu nærgætni og tillitssemi og beri virðingu fyrir tilfinningum þess, hvernig sem þær brjótast út.

Helstu einkenni áfalla

Varðandi helstu einkenni er starfsfólki skólans bent á að kynna sér bæklinginn – Sálrænn stuðningur í skólastofunni – sem Rauði kross Íslands gaf út árið 2002 (er í áfallamöppunni). Þessum bæklingi er ætlað að kynna ýmis almenn hugtök og aðferðir auk þess að veita kennurum og öðru starfsfólki gagnlegar leiðbeiningar um viðbrögð við erfiðleikum nemenda í kjölfar alvarlegra atvika.

Eftirfylgni

Mikilvægt er að umsjónarkennari sé vel vakandi yfir líðan barnsins því einkenni geta komið fram löngu eftir áfallið. Hafa þarf í huga að ákveðnir tímar eru oft viðkvæmir s.s. jól, páskar, afmæli og fleiri. Umsjónarkennari getur alltaf leitað til áfallaráðs ef á þarf að halda.


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is