Umhverfisfræðsla

5.12.2017

Í námsefni 10. bekkjar er umhverfisfræðsla tekin fyrir. Fræðslan tekur á ýmsum þáttum sem standa okkur nær og skiptir það máli að allir séu meðvitaðir um stöðu umhverfismála hér á landi og á heimsvísu. 
Í tilraun til að fræða aðra og koma upplýsingum áfram um málefni sem skipta okkur öll máli, unnu nemendur verkefni sem snýr að fræðslu yngri einstaklinga. Útkoman var barnabækur sniðnar að nemendum í 1. - 3. bekk grunnskóla. Bækurnar eru settar upp í formi lestrarhefta og voru þær unnar út frá 6 yfirþáttum en hver og einn hafði sköpunarleyfi innan þess þáttar sem valinn var. 

Yfirþættirnir voru: gróðurhúsaáhrif, ósonlag, loftmengun, eitur og úrgangur, sorp og að lokum neysla. 
Hver bók er í kringum 8-10 bls. að lengd og inniheldur hún mismargar setningar á hverri blaðsíðu. Því má finna bækur sem henta flestum.

Í kjölfarið fóru nokkrir fulltrúar nemenda og kynntu bækurnar fyrir yngri nemendum grunnskólans við mikinn fögnuð þeirra.

Einnig tók sami hópur sig til og hannaði borðspil tengd umhverfismálefnum. Útkoman þar var skemmtileg og fræðandi spil ætluð nemendum í 5. – 10. bekk grunnskóla.

Úr varð vel heppnað verkefni og er það von okkar hér í Öldutúnsskóla að það fái að njóta sín á sem flestum vettvöngum.


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is