Skólastarf að loknu samkomubanni

30.4.2020

Mánudaginn 4. maí hefst skólastarf í grunnskólum Hafnarfjarðar samkvæmt stundatöflunni sem gilti áður en skólastarf var skert í samkomubanni. Kennsla í íþróttum og sundi hefst líka, þó eru framkvæmdir í Suðurbæjarlaug og gæti kennsla í þeim tímum því farið fram hér í skólanum þar til framkvæmdum lýkur. Íþróttakennsla verður í Strandgötu og Kaplakrika, þar til hún færist út, en íþróttakennara munu upplýsa foreldra þegar að því kemur.

Nemendur í Öldutúnsskóla eig að mæta í skólann mánudaginn í þriðju kennslustund; yngri- og unglingadeild kl. 9:50 og miðdeild kl. 10:20, en í upphafi mánudags hefur starfsfólk möguleika til að funda og skiplags

Unnið verður eftir stundatöflu til vors og skólaslit munu fara fram út frá samþykktu skóladagatali. Meðal annars er sameiginlegur skipulagsdagur 29. maí. Frímínútur verða með hefðbundnu sniði.

Frístundaheimilið Selið mun starfa eftir saman hætti og fyrir samkomubann og frístundaakstur hefst á ný. Starf félagsmiðstöðvarinnar Öldunnar fer í eðlilegt horf en sameiginlegir viðburðir verða ekki haldnir. Kennsla kennara Tónlistarskóla Hafnarfjarðar í Öldutúnsskóla sömuleiðis.

Námsmat mun fara fram samkvæmt venju en hver skóli útfærir það á sinn hátt og beðið er skýrari fyrirmæla stjórnvalda um útskrift 10. bekkinga og innritun í framhaldsskóla.

Það er þó ljóst að það verður að raða verkefnum í forgangsröð núna í maí þar sem hefðbundið skólastarf hefur ekki verið frá 16. mars sl. Það felur í sér að ekki verður mögulegt að sinna öllum hefðbundnum verkefnum í maímánuði eða þeim sem misst hefur verið af.

Grunnskólastjórnendur hafa komið sér saman um skipulag að vinna eftir til vors út frá sömu þáttum í öllum skólum. Þannig munu foreldraskemmtanir og útihátíðir með foreldrum ekki verða í vor þótt slíkt verði mögulegt með nemendum.

Árshátíðir nemenda falla niður en skoðað verður með aðrar skemmtanir undir lok skólaársins. Ferðalög verða í styttri kantinum og útskriftarsamkomur þarf að minnka til að of margir fullorðnir verði ekki staddir á sama stað á sama tíma. Við biðjum foreldra að virða tveggja metra nálægðarregluna og koma ekki inn í skólahúsnæðið af tilefnislausu til vors heldur notast við rafræn samskipti eftir því sem við á.

Mötuneyti Öldutúnsskóla opnar í ný mánudaginn 4. maí og nemendur geta einnig komið með eigið nesti á ný. Hafragrautur verður veittur að morgni, ávaxtaáskrift er um miðjan morgun, hádegismatur framreiddur í skólamötuneyti og loks síðdegishressing í frístundaheimili eins og áður. Þó hefur verið ákveðið að halda ekki sjálfskömmtun á mat í hádegi í neinum skóla en nemendur munu áfram skammta sér sjálfir grænmeti með matnum. Mánudaginn 4. maí hefst afhending á mat sem átti að afhenda þann 16. mars hjá þeim sem voru í áskrift fyrir mars. Skólamatur mun senda fljótlega út greiðsluinnheimtuseðla til áskrifenda vegna þess tíma sem eftir verður af skólaárinu, þ.e. frá um miðjum maí og fram til loka skólaársins.

Áfram verður lögð áhersla á sóttvarnir í skólanum þótt sóttvarnarhólf leggist af þann 4. maí og treyst verður áfram á samvinnu og samstöðu allra um að þvo sér vel og spritta hendur.

Reglur um skólasókn í taka aftur gildi 4. maí eftir að hafa verið settar í bið meðan á samkomubannstímanum stóð. Það er mikilvægt að mæta í skólann og ætlast er til af skólunum að fylgja fast eftir að nemendur sæki skóla og styðji þá nemendur sem kvíða endurkomu í daglegt skólastarf.

Hefðbundin skólaþjónusta hefst á ný, t.d. teymisvinna vegna einstakra nemenda, greiningar og ráðgjöf sálfræðinga, talmeinafræðinga og kennsluráðgjafa og önnur skólaþjónusta eins og við á.

Með þessum breytingum sem nú taka gildi skiptir miklu að allir taka virkan þátt í að viðhalda þeim árangri sem hefur náðst í að stöðva kórónuveirufaraldurinn.

Við þökkum ykkur jákvæðni gagnvart þeim takmörkunum sem þurfti að setja á skólastarfið í mars og vonumst nú til að þessi breyting yfir í eðlilegt skólastarf komi til með að vera. Við hlökkum til að fá börnin ykkar í hefðbundið skólastarf á ný.


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is