Páskakveðja

3.4.2020

Starfsfólk Öldutúnsskóla óskar gleðilegra páska og vonar að þið hafið það sem best í fríinu. Fáir verða á ferðinni; eins og Víðir sagði þá eigum við helst að ferðast innandyra. Hægt er þá verja tímanum til alls kyns iðju, s.s. að spila, púsla, lesa, leika.. það má líka fara út í gönguferðir og að leika utandyra, en í litlum hópum. Svo er hægt að taka þátt verkefninu Tími til að lesa. Heitið er dregið af aðstæðunum, þar sem margir hafa meiri tíma en áður til að lesa og þörfin fyrir hugarleikfimi hefur sjaldan verið meiri. Árangurinn er mældur í tíma, þar sem fólk er hvatt til að skrá allan sinn lestur á vefsíðunni:

timitiladlesa.is

Þessi þriðja vika samkomubanns var lík þeim tveimur fyrri hér í skólanum. Nemendur hittu kennara sína daglega og unnu við alls konar verkefni, sem voru ótrúlega fjölbreytt þrátt fyrir stuttan tíma. Meðfylgjandi myndir sýna hluta þeirra verkefna.

Eins og fram hefur komið er heldur samkomubannið áfram fram í maí og verður því skólastarfið með samskonar hætti og verið hefur undanfarnar þrjár vikur. Nemendur mæta því á sama tíma og verið hefur og hefst skólastarf eftir páskafrí þriðjudaginn

14. apríl.Okkur langar að þakka foreldrum fyrir afar gott samstarf. Við höfum eingöngu fengið jákvæð skilaboð frá ykkur og fundið mikinn meðbyr með okkar starfi. Við erum líka afar þakklát fyrir að hafa börnin ykkar í skólanum. Þau eru jákvæð og vinnusöm og þykir greinilega gott að koma að hitta aðra nemendur og kennarana sína.


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is