Pals

30.11.2017

Nú er Pals lestrarþjáfun í gangi hjá öllum í 2.-7. Bekk.
Lestraraðferðin Pals, eða Pör Að Læra Saman, byggist á að nemendur vinna tveir og tveir saman og skiptast á að lesa texta. Annar er lesarinn og hinn þjálfarinn og svo er hlutverkunum snúið við. Lesari 1 les fyrst í 5 mínútur á meðan félagi hans, sem er í hlutverki þjálfarans, fylgist með að rétt sé lesið. Ef lesandi les rangt biður þjálfarinn hann um að stoppa, leiðrétta sig og lesa setninguna eða málsgreinina aftur. Þjálfarinn aðstoðar við að lesa rétt ef með þarf. Þegar lesari 1 hefur lesið í 5 mínútur skipta félagarnir um hlutverk. Eftir að báðir nemendur hafa lesið sama texta í 5 mínútur hvor æfa þeir sig í að beita lesskilningsaðferðum með markvissum hætti, þ.e. að veita aðalatriðum athygli, draga þau saman og spá fyrir um það sem kemur næst í sögunni. 
Markmið aðferðarinnar er að þjálfa nemendur sérstaklega í lesskilningi og lestrarfærni. Undanfarin fimm ár höfum við notað Pals aðferðina markvisst og er hún orðin fastur liður í skólastarfinu okkar.


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is