Norðurlönd

20.5.2019

Eftir áramót hafa nemendur í 6. bekk verið að læra um Norðurlöndin í samfélagsfræði. Í byrjun lærðu þau um öll Norðurlöndin. Texti var lesinn og ræddur, spurningum svarað og merkt var inn á landakort.
Að þeirri vinnu lokinni var nemendum skipt í hópa, þvert á árganginn, þar sem hver hópur fékk eitt land til að einbeita sér að.

Krakkarnir stofnuðu sína eigin ferðaskrifstofu, nefndu hana, útbjuggu vörumerki hennar og slagorð. Þau bjuggu til ferðabæklinga og settu upp pakkaferðir, þar sem boðið var upp á fjölbreyttar ferðir til Norðurlandanna.

Lögð var áhersla á að þau fyndu helstu upplýsingar um landið, áhugaverða staði til að skoða og skemmtilega afþreygingu í landinu. Einnig bjuggu nemendur til kort af landinu og merktu inn á það höfðuborg landsins ásamt öðrum stórum bæjum, ár, vötn og áhugaverða staði. Krakkarnir luku verkefnavinnunni með því að bjóða foreldrum á ferðakynningu um Norðurlöndin. Kynning hófst á sal skólans þar sem nemendur fluttu kynningu um löndin, sem var lesin og sýnd á slides.

Síðan var foreldrum boðið í kennslustofurnar þar sem hóparnir höfðu sett upp sölubása, sem þau höfðu skreyttu með verkefnum sínum, hlutum frá löndunum og veitingum. Margir buðu upp á spurningarkeppni þar sem hægt var að vinna sér inn góðgæti með því að svara spurningum rétt um landið, út frá kynningu nemenda.

Svona vinna er afar skemmtileg en krefjandi og stóðu nemendur sig einstaklega vel og eiga mikið hrós skilið fyrir vinnu sína, vel gert 6. bekkur.


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is