Júlíulundur

29.5.2019

Dagana 10. - 12. apríl var þemavika í Öldutúnsskóla sem var tileinkuð Grænfánanum og náttúruvernd. Nemendur í umhverfisnefnd skólans, sem samanstendur af nemendum úr 7. - 10. bekk, komu með allskonar hugmyndir og útfærslur af verkefnum sem kennurum var frjálst að nýta. Unnið var með að endurvinna allskonar hluti í öllum árgöngum skólans en meðal annars voru búnar til buddur úr mjólkurfernum og fjölnotapokar úr stuttermabolum svo eitthvað sé nefnt.

Í unglingadeildinni var ákveðið að vinna með fata-, matar- og raftækjasóun. Nemendur sem unnu með fatasóun settu upp nytjamarkað 11. apríl þar sem þeir söfnuðu hlutum, fötum, skóm og fleiru heiman frá sér sem máttu eignast framhaldslíf. Einnig voru seldir hlutir sem nemendur höfðu búið til á þemadögunum. Þar má nefna fjölnotatöskur, fjölnotagrænmetispoka, hárteygjur, hárskraut og gjafapoka. Umhverfisnefndin ákvað að markmiðið með markaðnum yrði að kolefnisjafna mengun nemenda og starfsfólks skólans með því að gróðursetja tré við skólann og ef afgangur yrði myndi hann nýtast í sannar gjafir hjá Unicef.

Markaðurinn gekk vonum framar og alls söfnuðu krakkarnir hátt í 70 þúsund krónum.

Krakkarnir gróðursettu fyrir ágóðan 4 rifsberjarunna, 2 sólberjarunna og 35 birkiplöntur. Afgangurinn var veglegur og gátu því nemendur keypt vatnsdælu og 25 bólusetningar gegn mislingum hjá Unicef.

Gróðursettningin fór fram 29. maí þar sem nemendur í 10. bekk hjálpuðust að. Trjálundurinn hlaut nafnið Júlíulundur eftir Júlíu Heiði Guðmundsdóttur nemenda í 10. bekk sem situr í umhverfisnefnd skólans og kom með hugmyndina af því að gróðursetja trén.


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is