Hinsta lestrarátak Ævars vísindamanns

16.1.2019

Lestrarátak Ævars vísindamanns er hafið og stendur til 1. mars.  Átakið virkar þannig að fyrir hverjar þrjár bækur sem nemendur lesa fylla þau út svokallaða lestrarmiða sem þeir fá hér í skólanum. Foreldri eða kennari kvitta á hvern miða og setja svo miðann í lestrarkassa sem staðsettur er á bókasafni skólans. 

Því fleiri bækur sem nemendur lesa því fleiri miða eiga þeir í pottinum. Það skiptir engu máli hvort bókin sem er lesin sé löng eða stutt, teiknimyndasaga, myndasögusyrpa eða skáldsaga. Hljóðbækur og þær bækur sem eru lesnar fyrir börnin gilda líka. Í ár geta foreldrar tekið þátt og fyrir þá gilda sömu reglur.

Sömuleiðis skiptir tungumálið sem bókin er á ekki máli. Bækurnar mega vera á íslensku, dönsku, frönsku, pólsku, japönsku, ensku osfrv. - bara svo lengi sem börnin lesa.

Í lok átaksins dregur Ævar út nöfn fimm barna og fá þau í verðlaun að verða persónur í síðustu bókinni um Bernskubrek Ævars vísindamanns. Einnig verður sá skóli sem les hlutfallslega mestsettur í bókina. Ævar mun líka draga einn nemenda úr hverjum einasta skóla sem tekur þátt og mun hann eða hún fá sérstaka bókagjöf frá honum. Þetta þýðir að það verður allavega einn sigurvegari í hverjum einasta skóla.

Í fyrsta átaki Ævars var Marek Ari, sem núna er í 6. bekk, svo heppinn að vera valinn og hann varð persóna í bókinni Risaeðlur í Reykjavík og í fyrra var Einar Karl í 4. bekk persóna í bókinni Ofurhetjuvíddin.

Hér er heimasíða Ævars vísindamanns.


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is