Tónlistarhátíð á Spáni

18.5.2018

Kór Öldutúnsskóla tók þátt í MRF tónlistarmóti á Spáni í byrjun maí (Costa Barcelona Music Festival).

Fjölbreyttar tegundir kóra tóku þátt frá öllum heiminum. Td. var þarna magnaður kór frá Suður Kóreu sem eingöngu var skipaður tannlæknum! Mótið sjálft fór að mestu fram í Calella litlum bæ í nágrenni Barcelona. Kórinn nýtti sér tilboð frá mótshöldurum og fór í skoðunarferð til Barcelona þar sem Gaudi kirkjan var skoðuð. Einnig fór kórinn til Benekiktarreglu klausturs Heilagarar Maríu í Montserrat. Þar hlustuðu krakkarnir á daglegan söng eins elsta drengjakórs heims kenndan við Montserrat en kórinn var stofnaður fyrir 800 árum. Öldutúnsbörnin sátu andöktug og hlustuðu og var þetta einn af hápunktum ferðarinnar hjá  þeim (fyrir utan það er þau hentu kórstjóranun sínum fullklæddum út í sundlaug).

Kórinn kom fram á einum tónleikum þar sem hver kór hafði 30 mínútur á sviðinu. Kórinn byrjaði á íslenskum þjóðlögum og endaði svo á alþjóðlegri tónlist á mörgum tungumálum. Skemmst er frá því að segja að kórinn sló í gegn. Börnin sýndu sínar bestu hliðar á allan hátt og var fagnað ákaft. Einnig kom kórinn fram á sameginlegum tónleikum allra kóra og hljómsveita á mótinu eftir skemmtilega skrúðgöngu með öllum tónlistarhópum í blíðskaparveðri.

Krakkarnir fengu mikla athygli frá tónleikagestum, öðrum kórsöngvurum og kórstórnendum. Kórstjórar áttu margir erfitt með að trúa að þetta væri kór úr venjulegum grunnskóla. Aðrir barnakórar á svæðinu voru skipaðir útvöldum börnum/unglingum úr tónlistarskólum/tónlistarakademíum og fleira. „Að hlusta á ykkar söng var hápunkturinn hjá mér“ sagði enskur karlakórsstjóri við mig – „og er ég búinn að hlusta á alla kóranna“. Mikið var ég stolt af kórnum mínum þarna og samvinnu minni við þessi yndisbörn. 


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is