Börnin bjarga - endurlífgun

20.1.2020

Í síðustu viku fengu krakkarnir í 7. bekk kennslu frá skólahjúkrunarfræðingi í endurlífgun. Fræðslan fjallar um mikilvægi þess að temja sér rétt viðbrögð við hjartastoppi en þau felast m.a. í því að kanna áreiti, hringja á hjálp, opna öndunarveg og athuga með öndun og loks hjartahnoð. Farið var í hvern lið og endað á verklegri æfingu með þar til gerðum æfingadúkkum. Skólahjúkrunarfræðingurinn kemur líka í heimsókn til 6., 8. og 10. bekkja með þessa fræðslu á næstu vikum.

Þessi fræðsla kallast Börnin bjarga og er nýr liður í fræðslu skólahjúkrunarfræðinga á vegum heilsugæslu. Fræðslan byggir á tilmælum Evrópska endurlífgunarráðsins sem árið 2015 hvatti allar þjóðir til þess að taka upp endurlífgunarkennslu meðal grunnskólanema, 12 ára og eldri. Rannsóknir hafa sýnt að slík kennsla getur þrefaldað þátttöku vitna í endurlífgun og tvöfaldað lífslíkur. Til mikils er að vinna í ljósi þess að einungis þriðjungur fólks, í hinum vestræna heimi, treystir sér til þess að hefja endurlífgun.

Skólahjúkrunarfræðingurinn hvetur foreldra að spyrja börnin sín út í fræðsluna og biðja þau að kenna sér réttu handtökin. Þannig fá þeir vonandi góða upprifjun og þekkingin festist enn betur í minni barnanna. Með þessu móti getum við margfaldað áhrif kennslunnar. Eins minnum við á skyndihjálparapp Rauða krossins og vefinn www.skyndihjálp.is. Þar er m.a. hægt að taka 2ja klst. ókeypis vefnámskeið í skyndihjálp sem við mælum eindregið með að allir gefi sér tíma til þess að taka, sem og auðvitað að fara reglulega á námskeið til þess að læra eða halda við verklegri þjálfun. 


Öldutúnsskóli | Öldutún 9, 220 Hafnarfjörður
Sími 555-1546 | Netfang oldutunsskoli@oldutunsskoli.is